144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

fjölgun virkjunarkosta og kjarasamningar.

[14:43]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Þessi langsótti útúrsnúningur hv. þingmanns kemur svolítið á óvart úr þessari átt því hv. þingmaður hefur nú iðulega verið málefnalegur í fyrirspurnum sínum. Ég hef hvorki sagt né gefið í skyn að það hvort menn muni klára þetta mál hér hafi eitthvað með það gera hvort samið verði yfir höfuð við BHM, þ.e. menn muni ekki vilja semja við BHM ef ekki verði ráðist í virkjanir. Ég er einfaldlega að segja að ef menn ætla að semja um verulegar launahækkanir þá þarf aukna verðmætasköpun í landinu til þess að þær launahækkanir skili sér í auknum kaupmætti, annars fara þær fyrir lítið og brenna upp í verðbólgu.

Þótt hv. þingmaður telji greinilega að búið sé að útvega orku, m.a. í öll fyrirhuguð kísilver, þá er það einfaldlega ekki rétt. Það eru fjölmörg mikilvæg verkefni, sem vel að merkja eru flest ekki stóriðjuverkefni, sem skortir orku, verðmæt framtíðarverkefni sem skortir orku, verkefni sem munu verða til þess fallin að skapa fjöldann allan af störfum, auka kaupmátt í landinu, auka hagvöxt, bæta lífskjörin, en það strandar á orkuþörfinni. Þá hlýtur að vera í lagi, virðulegur forseti, að menn skoði a.m.k. þá orkuöflunarkosti sem eru taldir umhverfisvænstir, ekki bara á Íslandi, heldur jafnvel um gervalla Evrópu. Menn hljóta að minnsta kosti að vilja skoða það því það má ekki gleyma því að þó virkjunarkostur fari í nýtingarflokk er ekki þar með sagt að það verði virkjað. Það er heilmikið ferli eftir við að meta hvort ástæða sé til að ráðast í virkjun og hvort það sé óhætt í tengslum við náttúruna, efnahagslega og þar fram eftir götunum.

Virðulegur forseti. Ef menn vilja að launahækkanir skili sér raunverulega í auknum kaupmætti þá þurfum við aukna verðmætasköpun í þessu landi. Þar hefur því miður í allt of mörgum tilvikum strandað á orkuskorti.