144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

stjórnarfrumvörp væntanleg fyrir þinglok.

[14:53]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Fyrir liggur þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar sem hv. þingmaður ætti auðveldlega að geta kynnt sér. En af því hann spyr hér sérstaklega um tvö mál þá vísa ég aftur í fyrra svar mitt þar sem ég reyndi að útskýra fyrir hv. þingmanni að mál sem eftir eiga að koma, sum þeirra, geta þurft að taka mið af því hvað stefnir í kjarasamningum, þar með talið húsnæðismálin. Eins og hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra hefur útskýrt þá er ráðherrann tilbúinn til þess að gera breytingar á frumvörpunum eða laga stefnuna að því sem í stefnir í viðræðum aðila vinnumarkaðarins til að niðurstaðan á vinnumarkaði skili sem mestu til heimilanna í landinu, og þá sérstaklega til þeirra sem standa höllum fæti, þeirra sem eru með lægstu tekjurnar. Svoleiðis að, já, það koma inn mál sem eru best til þess fallin að ná sem mestum árangri, sérstaklega fyrir fólk með lægri tekjur, í tengslum við það að skrifað verði undir kjarasamninga. (Forseti hringir.)

Eins og komið hefur fram og hv. (Forseti hringir.) þingmaður á að vita þá koma að sjálfsögðu líka (Forseti hringir.) frumvörp um losun hafta.