144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

um fundarstjórn.

[15:14]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tek undir óskir um að hæstv. forsætisráðherra sé viðstaddur umræðuna. Ástæðan fyrir því er sú að hæstv. forseti sagði í hádegisfréttum að ramminn væri forgangsverkefni og forgangsmál ríkisstjórnarinnar. Við þurfum hins vegar skýringar á því hvaða rammatillaga er forgangsmál ríkisstjórnarinnar. Er það tillaga hæstv. þáverandi umhverfisráðherra, Sigurðar Inga Jóhannssonar? Við í Samfylkingunni erum tilbúin að samþykkja hana, tillögu um Hvammsvirkjun. Er það tillagan sem hæstv. núverandi umhverfisráðherra hefur talað um að komi til greina sem er sú tillaga plús aðrar virkjanir í neðri hluta Þjórsár? Þá þarf að fá skýringar á því. Eða er það tillaga hv. þm. Jóns Gunnarssonar og meiri hluta atvinnuveganefndar sem hér liggur fyrir? Hvað nákvæmlega er forgangsverkefni ríkisstjórnarinnar? Það verður að liggja fyrir áður en lengra er haldið í þessu máli. Við verðum að fara að fá skýringar á því hér svo umræðan geti haldið áfram (Forseti hringir.) um það á hvað ríkisstjórnin leggur raunverulega áherslu. Hvar hefur það verið rætt? Hefur það verið rætt á ríkisstjórnarfundi? Hefur ríkisstjórnin komist að formlegri niðurstöðu um það? Við þurfum að fá að vita þetta.