144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:12]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Forseti. Ég vil ítreka það sem ég sagði undir þessum dagskrárlið fyrr í dag. Hæstv. forsætisráðherra virðist vera í einhverjum barnalegum leik sem snýst um að hóta þinginu að það verði sumarþing. Ég tel að enginn þingmaður sé ekki tilbúinn að vinna hér fram á sumar og jafnvel í allt sumar ef við vissum hvað við ættum að ræða. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að það fylgi þessum staðhæfingum forsætisráðherra. Maður veit svo sem ekki hvort hann hefur komist að samkomulagi við forseta þingsins um þetta. Ég tel að það hljóti að vera partur af umræðunni sem hefur verið hér um sumarþing að það komi fram hvað eigi að ræða á þessu sumarþingi. Þá finnst mér að þeir sem stjórna hér ættu líka að taka tillit til þess sem stjórnarandstaðan hefur (Forseti hringir.) ítrekað sagt, að við teljum þá tillögu sem er hér á borðinu ekki þingtæka (Forseti hringir.) eins og hún er lögð fram.