144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:16]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég hef kallað eftir því núna ítrekað að hæstv. forsætisráðherra sé við umræðuna að gefnu tilefni. Hann hefur ítrekað komið fram með fullyrðingar og gefið í skyn ákveðna hluti sem mér finnst nauðsynlegt að fá tækifæri til að ræða við hæstv. forsætisráðherra, ekki síst líka vegna þess sem hér hefur ítrekað komið fram að hann kemur inn í umræðuna og óskar eftir að við ræðum og rökræðum málið.

Búið er að flytja tvær efnismiklar ræður þar sem hv. þm. Oddný Harðardóttir fór mjög vel yfir sögu og aðdragandann í málinu og sömuleiðis hv. þm. Guðmundur Steingrímsson. Það eru lítil viðbrögð frá stjórnarliðum, þ.e. þeir koma ekki með neinar athugasemdir eða ábendingar sem væri mikilvægt að fá inn í umræðuna og ekki hvað síst frá hæstv. forsætisráðherra, fyrir utan að hæstv. forsætisráðherra hefði verið hollt að hlusta á umræðuna þó ekki væri nema til að hann færi með rétt mál um umfjöllun þess og hvernig ákvarðanatakan var á síðasta kjörtímabili.