144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:56]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir góða og málefnalega ræðu og það er til fyrirmyndar að sitja hér í þingsalnum og átta sig betur á stórum og flóknum málum. En þetta mál á sér auðvitað langan aðdraganda og það er algerlega hárrétt hjá þingmanninum að sú hugsun sem er að baki við gerð rammaáætlunar frá upphafi, að reyna að hefja okkur upp yfir pólitíska togstreitu, sem þeir sem stóðu að þessu máli í upphafi höfðu að markmiði, er góð.

Það gerðist hins vegar í tíð síðustu ríkisstjórnar að málið var tekið úr þeim farvegi og sett í pólitískan farveg. Það var síðasta ríkisstjórn sem gerði það með inngripi ráðherra sem viku frá þeirri tillögu sem sá hópur sem var fenginn til að flokka röðun verkefnisstjórnar í rammaáætlun 2 lagði til. Því var lýst yfir í þingsalnum að ekki væri friður um þá tillögu þáverandi ríkisstjórnar. (Forseti hringir.) Það er gott að fá tækifæri til að upplýsa hv. þingmann um að ástæðan fyrir því að þetta mál er komið út í þennan skurð er að það var sett í pólitískan farveg af síðustu ríkisstjórn.