144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

dagskrá næsta fundar.

[10:11]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Hér er lögð fram tillaga sem er viðleitni, tilraun, ósk og áskorun frá stjórnarandstöðunni um að koma þinginu áfram í vinnu og fjalla um þau mál sem brenna hvað mest á okkur. Við erum að fjalla um ástand á vinnumarkaði sem er fullkomlega óviðunandi og við fengum þær slæmu fréttir í gær að það væri ekki boðað til fundar, hvorki í verkfallsdeilum BHM né hjá Samtökum atvinnulífsins og á almenna markaðnum. Það er full ástæða til að við fjöllum um þessa hluti.

Hófleg tillaga um lausn á því sem hér hefur verið rætt um í sambandi við ramma er að óska eftir því að tillaga ríkisstjórnarinnar og hæstv. umhverfisráðherra um Hvammsvirkjun verði tekin til umfjöllunar, þ.e. farið með hana í nefnd og hún komi síðan til umfjöllunar þingsins og afgreiðslu. Aðrar fari í gegnum verkefnisstjórn þar sem þær verði teknar fyrir jafnóðum. Það tekur hugsanlega tvo, þrjá mánuði og svo koma þær hér inn í (Forseti hringir.) september og það breytir engu um framgang málsins nema að við fáum faglega umfjöllun og faglega niðurstöðu. Þetta er hófleg krafa okkar um lausn á málinu.