144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

dagskrá næsta fundar.

[10:46]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Áfram um það að reyna að finna lausn á þessu mikla deilumáli. Ég tek undir þá tillögu sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson kom með áðan, um að taka málið til nefndar. Það var akkúrat það sem ég talaði um áðan, þó að ég átti mig á því að hv. þingmaður gerir sér ekki grein fyrir því að hér er verið að tala um þingsályktunartillögu og síðari umræðu. En samt sem áður er hægt að stöðva umræðu og nefndin getur tekið málið til sín til að reyna að finna sátt. Það eru fleiri sem talað hafa fyrir því. Í ágætri ræðu hv. þm. Ásmundar Friðrikssonar í gær talaði hann í þessum anda og mér sýnist að við þessa miklu umræðu sé nú að koma upp efi hjá fleiri þingmönnum stjórnarflokkanna um að tillagan sé óþingtæk og að hún stefni öllu þessu máli í uppnám.

Virðulegi forseti. Hæstv. forsætisráðherra hefur sagt að þetta mál sé mikilvægt inn í kjarabaráttuna, hækkun lægstu launa. Ef við getum afgreitt hér fljótlega framkvæmdir við Hvammsvirkjun (Forseti hringir.) upp á 82 megavött, gæti það þá ekki dugað til þess að ríkisstjórnin kæmi að borðinu og beitti sér fyrir lausn á þeirri miklu deilu sem er á vinnumarkaði?