144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

breytingartillögur við rammaáætlun.

[11:36]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég ítreka ósk sem ég bar fram fyrr í dag um að hæstv. forseti hlutist til um að á morgun verði hér umræða og skýrsla frá hæstv. forsætisráðherra um stöðuna á vinnumarkaði. Mér finnst gríðarlega mikilvægt að við fáum tækifæri til að ræða það vegna vondra frétta af stöðunni. Við erum komin á fimmtu og sjöttu viku í verkfalli á spítala og vitum að það er farið að bitna á gríðarlega mörgum sjúklingum. Það er alls óviðunandi að við fáum ekki tækifæri til að ræða það og leita þá sameiginlega lausna um það hvað ríkisstjórnin geti gert og þingið getur þá stutt viðkomandi aðila hvað það varðar.

Eins ítreka ég fyrri ósk mína um að hæstv. forsætisráðherra verði við umræðuna um rammaáætlun. Nú er búið að ákveða með meiri hluta þingsins að rammaáætlun verði áfram á dagskrá fram eftir kvöldi og ég tel gríðarlega mikilvægt að hæstv. forsætisráðherra sé við umræðuna. Það var óskað eftir þessu í allan gærdag (Forseti hringir.) og hann mætti aldrei þannig að ég óska eftir því að hæstv. forseti upplýsi okkur um af hverju forsætisráðherra er ekki við umræðuna.