144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

húsnæðismál.

[16:12]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. málshefjanda Árna Páli Árnasyni og hæstv. ráðherra fyrir svör hennar í þessari umræðu. Ég get tekið undir með þeim báðum, þetta eru gríðarlega mikilvæg mál. Þetta er það sem almenningur í landinu kallar eftir. Beðið er eftir þessum málum hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra af því að vandinn er brýnn. Fólk horfir á gríðarháa leigu til að mynda á höfuðborgarsvæðinu, hvort sem það er fólk sem hefur ekki átt húsnæði en þarf að vera á leigumarkaði, fólk sem jafnvel hefur misst húsnæði vegna efnahagsþrenginganna á undanförnum árum. Það er svo sannarlega beðið eftir raunverulegum úrbótum. Ég verð að viðurkenna að þau tvö frumvörp sem eru komin til kasta Alþingis, um húsnæðissamvinnufélög annars vegar og hins vegar um breytingar á húsaleigulögum, eru ekki þau mál sem munu leysa mál þessa fólks. En ég hlýt að spyrja af því að við hv. þingmenn heyrum auðvitað fréttir og við heyrum í hæstv. fjármálaráðherra sem hefur sagt að frumvörpin hafi ekki verið tilbúin, að enn sé verið að breyta frumvörpunum, ekki sé hægt að vinna kostnaðarmat fyrr en frumvörpin verið fullunnin. Svo langt hefur gengið í samskiptum hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra og hæstv. fjármálaráðherra að hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra hefur jafnvel orðað það að leggja frumvörpin fram, ekki í nafni ríkisstjórnarinnar, ekki með kostnaðarmat fjármálaráðuneytisins, heldur sem þingmaður, sem hv. þm. Eygló Harðardóttir.

Ég hlýt að spyrja af því að málið er brýnt, og ég vænti þess að hv. þingmenn í öllum flokkum séu reiðubúnir að finna lausn á þessu eina brýnasta úrlausnarefni samtímans: Hvað er það sem tefur? Er ágreiningur í ríkisstjórninni? Munum við eiga von á frumvörpunum á næstu dögum? Er núna setið að skrafi við aðila vinnumarkaðarins og þýðir það að málin eru ekki enn kláruð til kostnaðarmats? Þetta eru spurningarnar sem við þurfum að fá svör við. (Forseti hringir.) Og að sjálfsögðu væri það gott ráð hjá hæstv. ráðherra að taka okkur (Forseti hringir.) í stjórnarandstöðunni til samráðs um þessi mál, því að þetta er mál sem við verðum að ná góðri sátt um.