144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áframhald umræðu um rammaáætlun.

[16:57]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Sú háskabraut sem við erum komin inn á á hinu háa Alþingi hófst með því að núverandi stjórnvöld sem þá voru í minni hluta hindruðu að hin nýja stjórnarskrá fengi framgöngu á Alþingi á síðustu dögum síðasta kjörtímabils. Síðan ákveður hæstv. utanríkisráðherra að sniðganga Alþingi af því að hann gat ekki komið í gegn máli sem lýtur að aðildarviðræðum við Evrópusambandið og núna, af því að þau komast ítrekað upp með að hunsa hið eðlilega þingræði og vilja þjóðarinnar, erum við komin í þá stöðu að — ég á eiginlega ekki orð til að lýsa þessu. Þetta er fullkomin vanvirðing við þessa stofnun og ég legg til, forseti, að þessari tillögu meiri hluta atvinnuveganefndar verði hreinlega hafnað og að hér verði boðað enn og aftur til þingflokksformannafundar til að fara yfir þessa hrákasmíð. (Forseti hringir.) Þetta er skammarlegt. Gerið grein fyrir máli ykkar, þingmenn meiri hlutans.