144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:58]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég kem hingað upp til að leggja til að málið verði tekið af dagskrá. Hér er verið að ræða rammaáætlun sem átti að vera ferli til að búa til sátt um þau vinnubrögð sem væru viðhöfð þegar orkunýtingarkostir væru flokkaðir. Það má augljóst vera að engin sátt ríkir því að hér hefur fólk leyft sér túlkanir sér í hag, fólk sem vill gamla verklagið um stríð um virkjunarkosti. Hér lá fyrir tillaga í samræmi við rammaáætlun þar sem þingmenn geta haft mismunandi skoðanir á því hvort þeir styðji viðkomandi virkjun eða ekki en allir voru sammála um að tillagan um hana byggði á leikreglunum sem við vorum búin að samþykkja hér. Ég legg til að málið verði tekið af dagskrá og fundin leið út úr þessum ógöngum.