144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[21:54]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég talaði um það undir þessum lið fyrr í morgun að rammaáætlun væri rædd undir öllum öðrum dagskrárliðum en nákvæmlega þeim sem er á dagskrá þingsins og til stendur að ræða og hefur staðið til að ræða undanfarna viku. Talað er efnislega um rammaáætlun í fundarstjórn forseta, í störfum þingsins, í fyrirspurnum til ráðherra. Það er skýrt brot á þingsköpum, virðulegi forseti, eins og hv. þm. Höskuldur Þórhallsson fór hér yfir áðan. Það er að mínu mati nokkuð sem forsætisnefnd verður að taka fyrir á næsta fundi sínum og gera fólki það alveg skýrt hvað það er sem ræða á undir fundarstjórn forseta. Nú er búið að halda 1.370 ræður frá áramótum undir fundarstjórn forseta, 1.370 ræður. (Gripið fram í.)Það sjá náttúrlega allir að þetta gengur ekki. Þetta er komið út í algjöra vitleysu. (Gripið fram í.)