144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[23:03]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég þakka forseta fyrir að upplýsa að boðum hafi ítrekað verið komið til forsætisráðherra um að nærveru hans sé óskað. Eigi þessi fundur að halda eitthvað áfram að ráði verðum við að vona að hæstv. forsætisráðherra komi nema ef hæstv. forseta er kunnugt um það, því að hann þekkir venjur hans kannski betur en sá sem hér talar, að hæstv. forsætisráðherra sé mjög kvöldsvæfur.

Ég held að það væri mjög gagnlegt að heyra útlistun hæstv. forsætisráðherra á þessu innleggi í kjaraviðræðurnar sem hefur reynst vera bull og vitleysa að því er við best fáum séð af heimildum úr fjölmiðlum. Það kannast enginn í viðræðum á vinnumarkaði við það að rammaáætlun hafi verið svo mikið sem nefnd á nafn þar. Persónulega hefði ég enn meiri áhuga á að ræða við hæstv. forsætisráðherra og heyra þjóðhagslegar útlistanir hans á því hvernig það að keyra aftur á braut gömlu stóriðjustefnunnar eigi að verða að krónum og aurum í vösum venjulegs verkafólks eða háskólamanna á spítölum. Það væri mjög áhugaverð umræða, mundi kannski dýpka skilning manns (Forseti hringir.) á því hvernig hæstv. forsætisráðherra nálgast þjóðhagsleg mál og hvaða skilning hann hefur á þeim.