144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

dagskrá næsta fundar.

[11:06]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson í Pírötum vill að við bíðum. Hann segir að minni hlutinn vilji bíða. Þá detta mér í hug þessi fleygu orð: Og ég beið og ég beið og ég beið. Já, já, við í meiri hlutanum munum bíða á meðan minni hlutinn úttalar sig um þetta mál. Við höfum alveg tíma til þess að gefa því eitthvert svigrúm hér.

Annað sem ég vil hafa orð á eru orð hv. formanns Bjartrar framtíðar, Guðmundar Steingrímssonar, hér áðan. Enn og aftur klifar sá ágæti maður á því að hér sé verið að fara á svig við lög. Hann ásakar meiri hluta atvinnuveganefndar um að vera að brjóta lög. Slíkar ásakanir eru alvarlegar, virðulegi forseti. Ég geri kröfu um að þessi ítrekuðu ummæli verði tekin upp í forsætisnefnd þingsins og hv. þingmaður, ásamt öðrum þeim sem halda þessu hér fram, verði látinn leggja fram lögfræðilegt álit sem styður þetta.

Það lögfræðilega álit (Forseti hringir.) og minnisblað sem þeir hafa verið að vitna í frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu (Forseti hringir.) er ekki það plagg sem styður þennan málflutning. Ég hef því óskað eftir því (Forseti hringir.) að hv. þingmenn taki þessar ásakanir til baka á meðan þeir geta ekki rökstutt mál sitt með styrkari hætti en raun ber vitni.