144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

dagskrá næsta fundar.

[11:27]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hér er augljóslega að fæðast viðbótarröksemd fyrir því að bjarga stjórnarmeirihlutanum út úr ógöngum sínum og í land með því að taka þetta mál af dagskrá. Taugar stjórnarliðsins eru að bresta eins og við verðum rækilega vör við. Hæstv. fjármálaráðherra er óvenjusnakillur svo ekki sé nú minnst á hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur. Hún má ekki við bindast (Gripið fram í.) hér í þingsalnum og æpir fram í hverja einustu ræðu. (Gripið fram í: Ég er hér.) Það er að verða að mannúðarmáli að bjarga [Hlátur í þingsal.] stjórnarliðinu út úr þessu með því að taka málið af dagskrá. Þetta gengur ekki. Ég held að hæstv. forseti sem er víðsýnn og reyndur maður hljóti að sjá að með því að taka á sig rögg, höggva á þennan hnút og hætta þessari vitleysu muni hann vaxa að virðingu mjög við það, enda ber honum nokkur skylda til því að hann er ekki alsaklaus í málinu eftir að hafa með úrskurði sínum (Forseti hringir.) yfir höfuð leyft að þetta færi hér fram.