144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

dagskrá næsta fundar.

[11:32]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við göngum hér til atkvæða um dagskrártillögu minni hlutans sem er til þess fallin að gera það sem hægt er til að endurreisa vinnufrið á Alþingi og til að skapa einhvers konar andrúmsloft jafnvægis. Við leggjum til að ófriðartillaga Jóns Gunnarssonar og félaga verði dregin til baka, að dagskrármálið verði dregið af dagskrá og að upprunaleg tillaga ráðherra verði til umræðu hér og umfjöllunar. Við erum að leggja okkar af mörkum til að þingið leggi sitt lóð á vogarskálarnar til að sýna að minnsta kosti viðleitni til að vera til friðs í samfélagi þar sem ófriður er uppi og þar sem forsætisráðherrann er sjálfstætt vandamál þar sem allt sem hann kemur nálægt verður að ófriði.