144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

dagskrá næsta fundar.

[11:34]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Um hvað snýst þessi dagskrártillaga? Hún snýst um það að við viljum ræða við forsætisráðherra um alvarlega stöðu á vinnumarkaði. Hvaða staða er það? Hún er sú að hópar opinberra starfsmanna, m.a. í heilbrigðisþjónustu, hafa nú verið í verkfalli í 45 daga án þess að ríkisstjórninni hafi tekist að þoka málum nokkuð áfram.

Í dag birtust fréttir um að í apríl hefði orðið aukning á tekjum af ferðamönnum um 15%. Ferðamenn versluðu fyrir 9,3 milljarða á Íslandi. Með sama áframhaldi koma engar tekjur frá þessum aðilum í júnímánuði, engar. Það verður engin 15% aukning. Það verða engir 9 milljarðar, eða meira, vegna þess að ríkisstjórninni er fyrirmunað að taka á þeim vanda sem steðjar að á vinnumarkaði. Þess vegna vill hún ekki ræða það hér og þess vegna fyrtast menn þegar við leggjum það til eins og við séum að angra þá. Auðvitað er erfitt að taka umræðu um stöðu sem maður ræður ekki við.