144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

lengd þingfundar.

[11:53]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég held að hæstv. forseta sé það fullljóst eins og okkur hinum sem hér erum að þessi umræða er í mjög neikvæðum farvegi og frekari umræða um þau mál sem eru á dagskrá að næturlagi eins og við áttum hér í gærkvöldi og fram á nótt þjónar ekki miklum tilgangi. Það sem væri réttast að gera væri að setjast niður og skoða það hvernig hægt er að ná einhverri sátt um þinghaldið fram undan í stað þess að fara í þessa hefðbundnu störukeppni sem alltaf er réttlætt með því sama, að svona hafi þetta alltaf verið. En hæstv. forsætisráðherra hefur talað fyrir breytingum á þinghaldi og þingstörfum. Ég hef stutt hann í þeirri umræðu. Ég held að þessi tillaga virðulegs forseta sé ekki til þess fallin að breyta neinu í þingstörfunum eða til að skapa uppbyggilegar umræður. Þess vegna greiði ég atkvæði gegn henni.