144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

ósk um fund forseta með þingflokksformönnum.

[14:21]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil taka undir það með félögum mínum í stjórnarandstöðunni sem hér hefur verið óskað eftir, bæði um að fundi sé frestað og fundað verði með þingflokksformönnum eins og við ítrekuðum fyrir matarhlé.

Talandi um umræðuhefðina þá leiðist mér að ráðherrar komi hér eins og þeir gerðu í morgun og það eina sem þeir höfðu til málanna að leggja var að tala um að stjórnarandstaðan væri ómálefnaleg og í málþófi og annað eins hefði bara aldrei sést, eins og hæstv. forsætisráðherra sagði.

Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hefur verið að segja okkur fyrir um hlutina, við eigum ekki að þurfa að greiða atkvæði um eitthvað sem búið er að greiða atkvæði áður, það hvernig nýting auðlinda fari fram eigi ekkert erindi inn á borð ríkissáttasemjara o.s.frv., þannig að hann virðist vera að segja fólki víðs vegar fyrir um hvað eigi erindi inn á borð hvers og hvar megi fjalla um hlutina, virðulegi forseti. Mér finnst það ekki boðlegt af hálfu ráðherra.