144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

markaðslausnir í sjávarútvegi.

[15:01]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Stundum er það þannig að markaðslausnir eiga best við og fyrir því höfum við talað í Samfylkingunni árum saman við nýtingu fiskveiðiauðlindarinnar. Við teljum reyndar að sátt náist ekki um upphæð veiðigjalds fyrr en það verður ákvarðað á markaðslegum forsendum og teljum augljóst að leita eigi markaðslausna vegna makrílkvótans.

Ég vil minna á það hér að í viðauka með skýrslu starfshóps um endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða frá því í september 2010 er í fylgiskjali 8 fjallað um tilboðsleið og rædd ráðstöfun aflahlutdeilda með samþættingu endurúthlutunar og tilboðsmarkaðar. Að beiðni formanns starfshópsins, hv. þm. Guðbjarts Hannessonar, unnu Þorkell Helgason, fyrrverandi prófessor í reiknifræði við Háskóla Íslands, og Jón Steinsson, lektor í hagfræði við Columbia-háskólann í New York, greinargerð um tilboðsleiðina.

Ég hvet hv. þingmenn til að kynna sér hugmynd þeirra en kostir tilboðsleiðar eru að leigugjaldið sem greitt er fyrir aflahlutdeildir sveiflast sjálfkrafa með arðsemi veiða og dregur úr líkum á pólitískum inngripum um ákvörðun leiguverðs. Þannig byggist upphæðin ekki á matskenndum ákvörðunum stjórnmálamanna. Útgerðin ákvarðar sjálf það gjald sem hún telur sér fært að greiða fyrir aðgengi að auðlindinni með tilboðum á markaði og það kemur í veg fyrir brask með kvótann. Einnig fylgir tilboðsleiðinni minni óvissa um pólitísk inngrip til framtíðar og það styrkir rekstrarumhverfi sjávarútvegsins. Svigrúmið innan kerfisins er aukið sem veitir best reknu fyrirtækjunum aukin tækifæri hvort sem þau eru gömul eða ný. Í útfærslu tilboðsleiðarinnar er auðvelt að taka tillit til byggðasjónarmiða, koma í veg fyrir samþjöppun og virða sérstöðu minni útgerða og, ef rétt er á málum haldið, leiðréttir tilboðsleiðin óréttlætið sem felst í því að ávinningurinn af hagræðingu í greininni renni í vasa fárra en íbúar sjávarbyggða beri kostnaðinn.