144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:17]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Herra forseti. Já, ég er alveg sammála hv. þingmanni um það, auðvitað eigum við að taka umræðu í þjóðfélaginu og upplýsa fólk eins vel og við getum þegar við ræðum svona stór mál, því að þetta eru stór mál. Og hvað varðar Skrokköldu, ég er ekki í atvinnuveganefnd en ég hef mikinn áhuga á landinu og íbúum þess. Menn hafa kastað því fram hér í ræðu og riti: Hvað erum við gera með því að fara í Skrokkölduvirkjun? Þó að hún sé neðanjarðar þurfum við línur og við þurfum uppbyggðan veg. Sumir vilja meina að þetta sé aðgöngumiðinn að miðhálendinu, þegar þar verði búið að virkja verði ekkert aftur snúið, því að menn vilji komast inn á það svæði. Einn góður maður skrifaði að hún væri trójuhestur virkjunarsinna til að fara inn á miðhálendið með því að byrja á að virkja í Skrokköldu. Eins og fram kom í máli hv. þingmanns skiptir hún í rauninni engu máli, hún er svo lítil.

Ég tek undir það að við eigum að kynna þetta og taka ákvarðanir með þjóðinni í svona stórum málum.