144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:44]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í umræðum og atkvæðagreiðslu um 2. áfanga rammaáætlunar rakti ég það einmitt að ég teldi mestar efasemdir um neðri hluta Þjórsár og ég vildi skýr efnisleg rök fyrir því að það væri réttlætanlegt að fella þær virkjanir í biðflokk. Niðurstaða mín var sú að það væru nægjanlega mikil rök fram komin um Urriðafossvirkjun sérstaklega og laxastofnana þar, eðlilegt væri að rannsaka það frekar. Ég taldi líka mikilvægt til að trygga sátt um málið og mæta þeim athugasemdum sem komið höfðu fram í því athugasemdaferli sem var lögbundið að vinna það til sáttarinnar að tekinn yrði viðbótarsnúningur og róið fyrir hverja vík í þessu máli í rannsókn. Niðurstaðan af því er jákvæð. Hvammsvirkjun er komin hér inn. Um hana er víðtæk sátt í samfélaginu. Það er svona sem menn vinna (Forseti hringir.) til þess að ná árangri; menn hlusta á áhyggjuraddir, menn róa fyrir hverja vík og ná árangri. Það er hin skynsamlega og rökrétta leið.