144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:18]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Hvaða þjóð er það bjóðandi að hér skuli á Alþingi, dag eftir dag, felldar tillögur frá stjórnarandstöðunni um að rædd verði þau mál sem mestu skipta? Við horfum fram í sérstaka stöðu í samfélaginu. Samfélagið er að þokast nær upplausn. Það blasir við að tugþúsundir Íslendinga verða í verkfalli núna á næstu dögum. Menn bíða eftir því að hæstv. ríkisstjórn láti í sér heyra. Við vitum vel að sagan sýnir að ekki er hægt að leysa kjaradeilur af þessari stærðargráðu án þess að ríkisstjórn leggi þar að einhvers konar atbeina sinn. En hæstv. ráðherrar þora ekki að koma til þingsins til að ræða við þingmenn um stöðuna, þeir láta ekki fjölmiðla ná í sig varðandi stöðuna á vinnumarkaði og það kemur hvergi neitt frá þeim um að þeir séu reiðubúnir til þess að leggja sín lóð á vogarskálar sátta. Það er þess vegna, herra forseti, sem ég skora á forsetadæmið að taka það til alvarlegrar íhugunar að taka þetta mál af dagskrá, fara að vilja þingsins og þjóðarinnar (Forseti hringir.) og setja á dagskrá þau mál sem brenna heitast, og það eru vinnudeilurnar. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)