144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:51]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef alltaf verið talsmaður þess að mál færu í þjóðaratkvæðagreiðslu með formlegum hætti þar sem við getum viðurkennt hvernig umfjöllunin á að eiga sér stað, og þá eigi að lúta þeirri niðurstöðu. Ég lít ekki á að það sé neitt tap, eins og stundum hefur verið rætt, fyrir ríkisstjórnir sem leggja mál fyrir þjóðina, það eiga menn að gera óhræddir og þeir eru menn að meiri ef þeir geta bara viðurkennt að það sé þá niðurstaðan sem getur verið í samræmi við tillögu ríkisstjórnar. Það á ekki að þýða að ríkisstjórn fari frá eins og sumir hafa oft verið að tala um.

Ég tek undir það sem hefur komið fram í sambandi við þjóðaratkvæðagreiðslur almennt. Það væri auðvitað mikill styrkur í því ef hér væri ákvæði um að þriðjungur þings gæti vísað málum til þjóðarinnar, vegna þess að í því fælist að umræðuhefðin mundi breytast. Ég tek bara heils hugar undir það, ég held að það skipti mjög miklu máli. Það er alla vega algjörlega ljóst af umræðum, bæði núna og oft áður, að meiri hlutinn geti endalaust vaðið yfir minni hluta, það er bara fjandsamlegt almennu lýðræði og í algjörri andstöðu við hugmyndir um lýðræði.