144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[21:01]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Nákvæmlega, það er einmitt gott að hafa faglegt ferli þar sem við erum með fulltrúalýðræði. Það væri gott að bæta svolitlu beinu lýðræði við það. Í fulltrúalýðræðisfyrirkomulaginu þyrfti að vera breiður rammi og sótt til stjórnsýslunnar með faglegar ákvarðanir. En ef ákvarðanir sem eru á endanum teknar af þinginu eru andstæðar vilja landsmanna þá hafa landsmenn tækifæri til þess að stöðva þær á bindandi hátt. Í framhaldinu væri að sjálfsögðu hægt að fara enn dýpra með fyrirkomulag á beinu lýðræði þannig að landsmenn gætu lagt fram tillögu sem þyrfti síðan að færa í lög eða stjórnarskrá. Hvort tveggja er fyrirkomulag í Sviss.

Nú langar mig að spyrja þingmanninn hvernig henni fyndist, að þessu gefnu, ef haldið yrði utan um góða stefnumótunarvinnu og reglur, eins og ramminn um nýtingu orkuauðlinda er hér á landinu, og fyrirkomulagið væri þannig að landsmenn gætu kallað mál í þjóðaratkvæðagreiðslu (Forseti hringir.) og meiri hluti þingsins gæti jafnvel, eins og þingmaðurinn sagði, gert það líka. Hvernig mundi hún ímynda sér að stjórnmálamenningin og þetta kerfislæga vandamál sem málþóf er mundi (Forseti hringir.) breytast?