144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[22:29]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Það hefur svo margt gerst síðan hæstv. umhverfisráðherra flutti í upphafi þingsályktunartillögu sína, sem tók svo breytingum í meðförum nefndarinnar. Eitt af því sem hefur verið gert er að eflaust hefur ráðherra beitt áhrifum sínum til þess að fá Hagavatnsvirkjun fellda út úr breytingartillögunni og vonandi minni hlutinn. Svo hefur komið í ljós að það er einhver misskilningur um það í nefndarálitinu hversu margir virkjunarkostir eru í nýtingarflokki. Eins kom fram í þingsal að einhverjum þingmanni fannst það fullmikið af því góða hvað við ræddum málið mikið og sagði að það yrði rætt betur í nefndinni, en þetta er síðari umræða þannig að málið fer ekki aftur til nefndar. Það sem mér finnst svo óþægilegt við þetta mál er að það var einhvern veginn ekki og er ekki tilbúið. Það var kannski tilbúið þegar ráðherrann kom fram með þingsályktunartillögu sína, en síðan hefur svo margt gerst. Það er það sem mér finnst óþægilegt, það er eins og maður sé að uppgötva ýmislegt í leiðinni sem maður vissi kannski ekki alveg fyrir.

Ég er að velta fyrir mér hvort hv. þingmanni finnist ekki einkennilegt að það er eins og ráðherra hafi ekki endilega sömu skoðun og jafnvel eins og einhverjir þingmenn standi ekki með ráðherranum heldur með hv. formanni atvinnuveganefndar, því að ég hef skilið ráðherrann þannig að hún vilji stíga varlega til jarðar. Það er líka athyglisvert að fyrrverandi umhverfisráðherra gerði aðeins tillögu um einn virkjunarkost. Mér þætti gaman að heyra hvað hv. þingmanni finnst um þetta.