144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

dagskrá næsta fundar.

[10:33]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Við getum lýst íslensku samfélagi í dag með því að hér ríki vantraust og átök. Við gerum hér tilraun dag eftir dag til að fá að breyta dagskrá Alþingis til að komast úr þeim farvegi hér innan húss með því meðal annars að ræða mál sem skipta miklu, það eru menntamálin og ekki síst ástandið á vinnumarkaðnum. Ég tel löngu orðið tímabært að við tökum þessi mál fyrir.

Hér er rætt um rammaáætlun dag eftir dag. Fyrir liggur tillaga, sem var upprunalega tillagan, lögð fram af ríkisstjórn, lögð fram af hæstv. umhverfisráðherra, um einn virkjunarkost. Öll stjórnarandstaðan er tilbúin að afgreiða þá tillögu, en á töflunni sést að stjórnarliðið ætlar að berja í gegn að við svíkjum rammaáætlun, sniðgöngum verkefnisstjórn, 3. áfanga, að við afgreiðum málið áður en við fáum niðurstöðu. Það er ofbeldið sem á sér stað í þingsalnum og því verður að sjálfsögðu mætt, til varnar málsmeðferð og náttúru.