144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

mæting stjórnarliða.

[10:50]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Hér á eftir ætlum við að ræða málefni framhaldsskóla. Óskað var eftir lengri umræðu. Ráðherrann hefur ekki verið hér við svo vikum skiptir og þegar hann hefur verið við hefur hann svo sem ekki svarað miklu og ég á ekki von á því að hann geti svarað mjög mörgu á eftir á þeim örfáu mínútum sem hann hefur til þess. Óskað hefur verið eftir því að sú umræða verði lengd. Ég veit ekki til að borist hafi svör við því en ég tel afar mikilvægt að það mál fái vandaða og ítarlega umfjöllun hér á þingi. Eitt af því sem við höfum lagt upp með þegar við tölum um breytta dagskrá, m.a. til að tala um menntamálin, til að tala um kjaramálin, er að fá stöðu hjá hæstv. forsætisráðherra og einhvers konar innlegg frá honum í það sem fram undan er.

Við vitum að það eru tugir þúsunda manna að fara í verkfall hér á landi. Hvað kostar það fyrir land og þjóð?