144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

mæting stjórnarliða.

[11:03]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Þegar þing kemur aftur saman eftir þá helgi sem nú fer í hönd, næsta þriðjudag, væntanlega vel úthvílt, eru fjórir dagar eftir af starfsáætlun þingsins. Miðað við þann tíma sem við höfum unnið hérna síðustu daga og vikur höfum við um það bil 64 tíma til að klára starfsáætlun þingsins. Vegna þess að það er mikið talað um málþóf í salnum er eitt sem menn verða að gera sér grein fyrir, því að þóf er samkvæmt skilgreiningu einhvers verk sem gengur seint og illa, seinlegt verk, en hér er á ferðinni mál sem gengur ekki neitt. Það er stopp. Það hreyfist ekki og það fer ekki neitt. Það þarf að draga til baka (Forseti hringir.) breytingartillögu meiri hluta atvinnuveganefndar til að þetta mál fari að hreyfast að nýju. Það verður ekki sagt nógsamlega oft hérna.