144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

mæting stjórnarliða.

[11:05]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ein af þeim leiðum sem þingið hefur valið og raunar stjórnsýslan til að taka á málum er að setja sér áætlun til lengri tíma. Þannig eigum við samgönguáætlun sem því miður er ekki í gildi af því að hún hefur ekki komið inn í þingið, við eigum heilbrigðisáætlun sem hefur heldur ekki komið inn í þingið á þessu kjörtímabili, hún er ekki tilbúin. Við áttum rammaáætlun sem hér er verið að reyna að eyðileggja. Við eigum að vísu ríkisfjármálaáætlun sem er nýkomin inn sem er mjög gott framtak. Við eigum enga atvinnustefnu, við eigum enga menntastefnu, við eigum stjórnarsáttmála sem kveður á um að það eigi að efla traust og samheldni í samfélaginu, við eigum sáttmála um frið á vinnumarkaði og að Ísland ætli að vera í fararbroddi í heiminum í umhverfismálum. Hvar í veröldinni erum við stödd í sambandi við allar þessar áætlanir hæstv. ríkisstjórnar hvað varðar þau mál sem hér eiga að vera til umræðu?

Krafan hjá stjórnarandstöðunni er að vinna eftir rammaáætlun, ekki fara Krýsuvíkurleið til að losna við að fara eftir þeim leiðum sem við höfum ákveðið í þinginu. (Forseti hringir.) Stjórnarmeirihlutinn virðist ætla að henda þessum áætlunum öllum svo hann geti verið með geðþóttaákvarðanir. Það finnst mér dapurleg staðreynd.