144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:39]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Þegar þessi breytingartillaga var lögð fram fyrr í vetur varð hér náttúrlega allt hálfvitlaust yfir því þannig að það var alveg ljóst í hvað stefndi. Ég velti fyrir mér hvað geri það að verkum að verið er að knýja á um að setja þetta inn.

Ég var viðstaddur þegar Búðarhálsvirkjun var sett í gang. Þar hlustaði ég á ræðu hæstv. fjármálaráðherra og ég velti fyrir mér hvort einhver samtenging sé hér á milli og þess sem hann sagði þar. Hann sagði þá í gleðivímu yfir því að búið væri að ræsa þá virkjun: Við erum rétt að byrja, við munum halda áfram að virkja. Ég velti fyrir mér hvort verið sé að láta undan freistingum valdsins og hlusta á sérhagsmunaaðilana í landinu og menn svífist einskis til þess. Maður fer að velta því fyrir sér í landi sem framleiðir 18 þúsund gígavattstundir af rafmagni. Hvað liggur á? Hvað hastar? Af hverju má þetta ekki fara sinn eðlilega farveg?