144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

áframhald umræðu um rammaáætlun.

[15:07]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Frú forseti. Ég er bjartsýnismaður að eðlisfari og bjóst við því að þessi fundur eftir þingflokksfundi mundi hefjast á tilkynningu frá forseta um einhvers konar niðurstöðu eða lendingu eða ákvörðun um að málið, sem hér hefur verið rætt síðustu tvær vikur, yrði tekið af dagskrá og menn mundu snúa sér að öðrum og brýnni verkefnum. Nú þegar þessar björtu vonir mínar hafa verið frá mér teknar með þögn forseta, mér liggur við að segja ærandi þögn, þá fyllist ég tortryggni svo maður lýsi nú tilfinningarófi sínu hér í ræðustól. Ég er farinn að ímynda mér að hér sé á ferðinni einhvers konar vinnustaðahrekkur, menn ætli bara að kanna hversu langt sé hægt að ganga með því að vera með fullkomlega óhæfa tillögu. Það hlýtur að koma tilkynning frá forseta um næstu skref.