144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

áframhald umræðu um rammaáætlun.

[15:11]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Ég hefði haldið að þeir hv. þingmenn meiri hlutans sem sátu fund atvinnuveganefndar í morgun væru áfjáðir í að koma hingað upp og gera grein fyrir því hvað kom fram hjá formanni verkefnisstjórnar í morgun, rökstuðningur hans fyrir því að þetta færi áfram í það ferli og yrði í því ferli sem er í gangi núna hjá verkefnisstjórn, að þeir skiluðu af sér haustið 2016 og að flýtimeðferð væri ekki í boði. Það væri mjög karlmannlegt af þeim þingmönnum meiri hlutans sem eru karlmenn að þeir kæmu upp og gerðu grein fyrir því. Ég kalla eftir því þar sem hv. þm. Páll Jóhann Pálsson er kominn í þingsal.