144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:41]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður má kalla það að fara mikinn. Mér er vissulega niðri fyrir þegar ég ræði þessi mál, þau standa hjarta mínu nærri, og það geri ég alveg af fullri einurð engu að síður hvernig sem það fer í fínu taugarnar á einhverjum hv. þingmönnum.

Varðandi niðurstöður rammaáætlunar 2 er það einfaldlega þannig, eins og búið er að reyna að útskýra fyrir hv. þingmönnum, að í kjölfarið á flokkuninni kemur það umsagnarferli sem lögin gera ráð fyrir og niðurstaðan úr úrvinnslu þeirra umsagna og ábendinga er sú að sex kostir eru látnir njóta vafans, þeir eru settir í bið. Það er ekki um varanlega tillögu eða flokkun að ræða, enginn skaði skeður. Allt og sumt er það að nokkrir kostir verða skoðaðir betur og síðan kemur í ljós síðar meir í hvaða átt þeir svo fara. Fara þeir allir eða sumir eftir sem áður aðeins seinna í nýtingarflokk eða dragast þeir í sundur með öðrum hætti?

Nú kann að vera að hv. þingmaður sé ekki mjög kunnugur varúðarreglunni og þeirri hugsun að náttúran njóti vafans, þ.e. að túlka óvissu henni í hag. Það er meðal annars með það í huga sem þetta er gert, horft til grundvallarreglna umhverfisréttarins. Mér finnst menn hins vegar í dag láta allt í einu eins og það sé ekkert mál að ýta því bara öllu til hliðar. Vissulega hefur ekki enn tekist að koma slíkum grundvallarleikreglum inn í stjórnarskrána. Þess er full þörf, en það réttlætir ekki að menn hegði sér á því herrans ári 2015 eins og ekkert hafi gerst, ekkert hafi skeð í umhverfismálum og þeir hafi aldrei heyrt á Ríó minnst eða nokkurn skapaðan hlut. Og þó þeir ýttu því öllu til hliðar ættu þeir að vera farnir að þekkja sína þjóð þannig, nema einhver rof séu á milli veruleika og skynjunar, að íslensku þjóðinni er ekki sama. Þeim sjónarmiðum hefur vaxið jafnt og þétt fiskur um hrygg að menn stígi varlega til jarðar þegar náttúran á í hlut. Þetta hljóta allir þingmenn eitthvað að hafa orðið varir við.