144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:14]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég held þetta gæti ekkert orðið mikið vandræðalegra þótt virðulegur forseti færi að spila hér afsakið hlé-stefið úr Ríkisútvarpinu, því það er morgunljóst eins og hv. þingmenn hafa nefnt að hér erum við að ræða tillögu sem margítrekað er búið að benda á að gengur gegn góðum vinnubrögðum, sem ekkert hastar, sem ekkert ýtir á. Það er engin ástæða til að flýta sér með þessa tillögu. Á meðan horfum við upp á heilbrigðiskerfi landsins fara í stopp af því meiri hlutinn á Alþingi vill ekki ræða stöðuna á vinnumarkaði. Meiri hlutinn á Alþingi hefur engan áhuga á því. Þau vilja fremur fylgjast með hæstv. forsætisráðherra sem tjáir sig um stöðuna á vinnumarkaði í nokkrum fjölmiðlum eins og um síðustu helgi og toppar það svo með því að mæta í Ríkisútvarpið í gærkvöldi og segja að allt sem hafi verið haft eftir honum í öðrum fjölmiðlum sé í raun og veru misskilningur, eins og flest allt sem haft er eftir hæstv. forsætisráðherra. Ég held að hæstv. forsætisráðherra ætti að fagna því að fá hér tækifæri til að tala beint við þjóð og þing um stöðuna (Forseti hringir.) á vinnumarkaði og tryggja að það verði enginn misskilningur í því sem hann hefur að segja við þing og þjóð.