144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:02]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og heiti því að styðja málflutning hennar og annarra þeirra þingmanna í öðrum flokkum sem vilja gera græn sjónarmið að sínum. Mér finnst það gríðarlega mikilvægt og tek undir það.

Ísland hefur nú oftar en ekki verið talið forustuland að því er varðar græna orku. Við höfum til að mynda mjög sterka stöðu hvað varðar endurnýjanlega orkugjafa til raforkuöflunar og það er mikilvægt. Ég sat áður í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur og hef horft mikið til þess sem er að gerast varðandi jarðhitanýtinguna, og þar leyfi ég mér aftur á móti að hafa miklar áhyggjur. Ég held að mörg sjónarmið séu þar og viðfangsefni sem eru ekki leyst að því er varðar brennisteinsvetnismengun, niðurdælingu, skjálftavirkni og ýmislegt því um líkt, þannig að jarðhitavirkjanirnar eru eitthvað sem þyrfti eiginlega algjörrar endurskoðunar við. Það er ekkert sjálfgefið að þær séu okkar lóð á vogarskál endurnýjanlegrar orku.