144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:38]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það væri áhugavert að heyra meira um fyrirætlanir hæstv. forseta í ljósi þess að hann tilkynnti okkur hér fyrir helgi að hann hefði tekið starfsáætlun úr sambandi. Ég sagði þá að við hefðum skilning á því að starfsáætlun mundi ekki halda, en ég lagði áherslu á að sem fyrst yrði settur einhver rammi svo að við vissum í raun innan hvaða ramma við störfuðum. Eitt af því sem hefur gerst er að þingfundir eru núna settir kl. 10 á morgnana og nefndatafla er ekki virk. Það er því engin leið fyrir nefndarformenn að halda fundi á eðlilegum tíma til að ljúka málum.

Mig langar að benda á að það er mjög mikilvægt að forseti fundi með hv. þingflokksformönnum til að koma einhverju skikki á þennan ramma sem fyrst til að við eyðum ekki meiri tíma en nauðsynlegt er í umræður hér um þetta mál, sem ég er margoft búin að ræða að eigi ekki að vera á dagskrá. Það þarf auðvitað sem fyrst að setja niður einhvern ramma og eiga samtöl um það. Þau hafa ekki orðið enn þá. Ég lýsi vonbrigðum mínum með það nú þegar nálgast kvöldmatarleyti á þriðjudegi að við erum enn í sömu óvissu og fyrir helgi.