144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:50]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé einhver misskilningur á ferðinni hjá meiri hlutanum ef hann heldur að þetta snúist bara um okkur, 25 manneskjur hér inni í sal, sem séum svona frekar til vandræða, eins og við séum einu Íslendingarnir sem höfum einhvern áhuga á þessu máli og viljum stoppa það. Það er ekki þannig. Við erum fulltrúar fyrir kjósendur okkar. Síðan er hópur þarna úti og þeir sem lesa blöðin ættu að sjá að þessi málsmeðferð meiri hlutans fer fyrir brjóstið á þjóðinni. Ég skil ekki af hverju meiri hlutinn er þá ekki duglegri við að koma hingað upp í ræðustól og reyna að réttlæta gjörðir sínar. Og eins og ég sagði áðan má kannski lægja öldurnar með því að taka málið af dagskrá um stundarsakir þannig að við getum sinnt öðrum málum. Í millitíðinni reynum við þá kannski að finna einhverja lausn vegna þess að það gerist ekki í þessum þingsal þar sem minni hlutinn talar við sjálfan sig og meiri hlutinn sést lítið.