144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

tilkynning.

[20:01]
Horfa

Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Á fundi þingflokksformanna sem haldinn var nú í kvöldverðarhléi greindi forseti frá þeirri ætlun sinni að fresta umræðu um 3. dagskrármálið að sinni, taka það af dagskrá og taka þá fyrir þau önnur mál sem gert er ráð fyrir að séu á dagskrá þessa fundar, raforkulög og stefnu stjórnvalda um lagningu raflína. Þetta er gert til að freista þess að greiða fyrir þingstörfum og komast til botns í því máli sem hér hefur verið hvað mest til umræðu og freista þess að finna lausnir í því máli. Það er þó ljóst að þetta mál er ekki frá okkur horfið, það er til staðar.

Á morgun er hins vegar ætlunin að vera með á dagskrá mál sem afgreidd hafa verið út úr nefndum þingsins til 2. og 3. umr. eða síðari umr. ef um er að ræða þingsályktunartillögur. Fyrir liggur einungis eitt nefndarálit auk tveggja, þriggja annarra mála sem verða þá aftar á dagskránni.

Með þessu væntir forseti þess að hér gefist svigrúm til að vinna í því máli sem hefur verið ásteytingarsteinn hér undanfarna sólarhringa og höfðar til hv. þingmanna allra að við reynum að vanda okkur í þeim efnum til að hægt sé að komast lengra áfram með það mál.