144. löggjafarþing — 113. fundur,  27. maí 2015.

störf þingsins.

[10:15]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég held að ég geti alveg tekið undir það með hv. þm. Karli Garðarssyni að fæstir vilji bónuslandið aftur. En það er svo fjöldamargt annað sem gerir það að verkum að almenningur upplifir að við séum aftur komin til ársins 2007. Það er ekki eingöngu bónuskerfi í bönkunum heldur ákveðið hugarfar sem ríkir líka innan veggja þessa vinnustaðar.

Mig langaði að gera að umtalsefni ástandið á leigumarkaði og þau miklu vonbrigði með það sem ég hef séð af þessu nýja húsnæðiskerfi. Húsaleigubætur — orðalaginu er bara breytt og samkvæmt því sem kom fram í fréttum RÚV þá mun þetta gagnast best þeim efnamestu út frá einhverjum skilgreiningum úr fjármálaráðuneytinu. Mig langaði að skora á þingmenn meiri hlutans að tryggja og aðstoða við að málið komist á dagskrá á Alþingi áður en við förum heim í frí svo að það geti fengið alvöruumsagnir í sumar þannig að hægt sé að koma á umbótum á húsaleigkerfinu sérstaklega sem og öðrum lausnum varðandi húsakost Íslendinga.

Það kom nýverið fram að allt of margir þekkja ekki réttindi sín. Það er nokkuð sem mér finnst brýnt að taka fyrir er, þ.e. hvernig stjórnsýslan virkar ekki hérna. Það er allt of algengt að kerfið fari í einhvers konar mótspyrnu. Í staðinn fyrir að þeir sem vinna við það viðurkenni að eitthvað þurfi að laga þá segir kerfið: „Computer says no!“, með leyfi forseta, ég biðst forláts á að nota ensku, en það þarf að snúa (Forseti hringir.) þessu orðalagi yfir á íslensku, kerfið segir sem sagt (Forseti hringir.) nei. Lögum það, breytum viðhorfinu.