144. löggjafarþing — 113. fundur,  27. maí 2015.

störf þingsins.

[10:22]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka forseta fyrir góða fundarstjórn og að hafa tekið málin í sínar hendur og leyst úr deilum í bili. Ég tek aftur það sem ég sagði í gær eða fyrradag að við ættum kannski að fá sendan forseta sænska þingsins hingað til lands, en þess þarf ekki eins og sakir standa.

Það sem mig langar aðeins að ræða eru fréttir um að setja eigi núna 850 millj. kr. í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða við uppbyggingu á innviðum ferðaþjónustunnar og 1,3 milljarða í vegaframkvæmdir. Þessu er deilt á Facebook og sett í fréttir eins og það sé alveg stórkostlegt og ríkisstjórnin sé að gera stórkostlega hluti. Nú er það þannig að það hefur legið fyrir lengi að fara þarf í uppbyggingu ferðamannastaða og reyndar fékk Framkvæmdasjóður ferðamannastaða 500 millj. kr. á fjárlögum 2013. Núverandi ríkisstjórn dró verulega úr fjárframlögum, voru aðeins 260 millj. kr. 2014. Þá þurfti að sækja tæpar 400 millj. kr. á fjáraukalög og núna fyrir fjárlög í ár var gert ráð fyrir 150 milljónum og auðvitað þarf að sækja núna 850 millj. kr. á fjáraukalög.

Fjáraukalög eru ekki til að fjármagna verkefni sem stjórnvöld vanáætla. Þetta er rassvasabókhald og er ólíðandi. Ég skil ekki að fólk sé úti um allan bæ að hrópa húrra fyrir ríkisstjórninni, að setja peninga í vegamál og í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða eða í uppbyggingu á ferðamannastöðum. Það hefur alltaf legið fyrir að þetta þurfi að gera og er ef ég man rétt í áætlun í fjárfestingaráætluninni sem ríkisstjórnin henti út af borðinu. Mætti ég biðja um vönduð vinnubrögð og kannski að meiri hlutinn og hæstv. fjármálaráðherra lesi nefndarálit minni hlutans. Ég benti á þetta í nefndaráliti mínu fyrir fjárlögin 2014 og 2015. Þetta átti ekki að koma neinum á óvart. Mér finnst þetta alveg ótrúleg vinnubrögð og furðulegt að vera að tala um aga og ábyrgð í ríkisfjármálum þegar menn haga sér svona.