144. löggjafarþing — 113. fundur,  27. maí 2015.

slysatryggingar almannatrygginga.

402. mál
[18:38]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Innleiðingin — þetta hefur verið prófað víða. Í þeirri þingsályktunartillögu sem hv. varaþingmaður Pírata, Halldóra Mogensen, lagði fram eru þau dæmi nefnd og niðurstöðurnar hafa verið mjög góðar. Þær hafa verið á þá lund að atvinnuþátttaka hefur aukist. Það er einmitt það sem ég heyrði nýlega — ég hef talað um þetta nokkrum sinnum í ræðustóli, ég þarf að fara að finna þá rannsókn — að ef velferðarkerfi er öflugt eykst atvinnuþátttaka. Þetta er einmitt andstætt við það sem maður hefur alltaf heyrt. Ég þarf að fara að finna þessa rannsókn, ef þingmaðurinn veit hvaða rannsókn þetta er þá væri ég mjög glaður að heyra það.

Það á eftir að innleiða þetta í ríkara mæli. Þetta er eitt af stefnumálum þeirrar andspyrnuhreyfingar sem var að vinna kosningasigur í tveimur borgum á Spáni. Það var ákall um þetta í Sviss, að þetta yrði sett í þjóðaratkvæðagreiðslu. Krafturinn er allur í þessa áttina. Þegar atvinnuleysi fer að aukast svona gríðarlega, þrýsta svona ofboðslega á — það er ekki bara spurning um hvort það gerist, það er bara spurning um hvenær það gerist, þ.e. þegar þessi sjálfvirkni mun eiga sér stað. Það er bara spurning um tíma. Þetta er bara spurning um það hve fjármagnið er dýrt og hve laun eru lág. Þetta er spurning um flöskuhálsana, eins og það hve margir forrita til að gera sjálfvirknina mögulega, og aðrir slíkir tæknilegir þættir. Þetta mun gerast, 20 ár kannski, 25 ár kannski, ég veit það ekki nákvæmlega, þetta mun gerast. Þrýstingurinn mun verða svo ofboðslega mikill á velferðarkerfið þannig að ýmsar lausnir verða skoðaðar.

Eru borgaralaun rétti kosturinn til að bregðast við þessu? Ég veit það ekki en í þingsályktunartillögu Pírata, sem hv. þm. Halldóra Mogensen vann alveg gríðarlega vel, er kallað eftir því að þetta sé rannsakað. Ég held að þetta sé komið á þann stað að við förum að reikna það út hvað þetta kostar. Þá sjáum við líka einhvern tímaramma inn í framtíðina, hvenær við munum hafa efni á þessu.