144. löggjafarþing — 113. fundur,  27. maí 2015.

slysatryggingar almannatrygginga.

402. mál
[19:17]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég held þetta sé alveg hárrétt hjá hv. þm. Guðbjarti Hannessyni að maður sveltir engan til þess að fara í vinnu sem ekki er í boði.

Mig langar að spyrja hv. þingmann út í annað sem hann kom inn á í ræðu sinni sem tengist heildarsamhengi almannatryggingakerfisins sem við höfum í landinu. Það varðar slysatryggingar tryggingafélaganna, þ.e. einkatryggingar, þar sem takmarkið er jú að tryggingafélagið græði peninga. Það er þess vegna sem þessar tryggingar eru seldar meðan almannatryggingakerfið er hugsað til þess að tryggja velferð fólks sem einhverra hluta vegna getur ekki framfleytt sér sjálft, hvort sem það er vegna sjúkleika, fötlunar eða atvinnuleysis.

Mig langar að spyrja hv. þingmann, af því við erum að ræða um frumvarp um slysatryggingar, hvort það geti ekki skapast ákveðin hætta ef skilgreiningunni á slysi eins og hún er núna í lögunum verður ekki breytt því nú er alltaf talsverður hluti af fólki sem ekki fær slysabætur, hvort það sé ekki hætta á því að með óbreyttu kerfi séum við hreinlega að grafa undan almannatryggingakerfinu og neyða fólk eða hræða fólk öllu heldur til þess að kaupa sér (Forseti hringir.) einkatryggingu.