144. löggjafarþing — 113. fundur,  27. maí 2015.

slysatryggingar almannatrygginga.

402. mál
[19:39]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna og tek undir það sem þar kom fram. Þetta er frumvarp þar sem formið er aðalatriðið. Það er verið að taka ákvæði sem varða slysatryggingar út úr lögunum um almannatryggingar og setja í sérstakan lagabálk á forræði Sjúkratryggingastofnunar. Það er óheppilegt þegar verið er að gera breytingar sem þessar á lögum sem í raun og veru þyrfti að breyta efnisinnihaldi að einhverju leyti. Hérna eru skilgreiningar og aukið umfang bóta, t.d. vegna atvinnusjúkdóma, sem og fjárhæðir bótanna þar sem þróun hefur verið óhagfelldari en í atvinnuleysistryggingum.

Það er líka athyglisvert að heilbrigðisráðherra hefur lagt fram sex frumvörp á þessu þingi. Þrjú þeirra eru tiltölulega lítil. Það hafa verið litlar breytingar sem hafa ekki krafist mikillar vinnu. Tvö komu mjög seint og munu ekki ná fram að ganga og annað þeirra er mjög lítið. Það er mjög sorglegt að ráðuneyti hans hafi ekki lagt vinnu í þetta. Það hefði vel verið hægt.

Við í minni hlutanum stöndum náttúrlega frammi fyrir því að við erum ekkert á móti því að þetta sé tekið inn í sérstakan lagabálk og stöndum bara að þessu svona.

Ég velti fyrir mér ræðu þingmannsins og því hvernig þetta kerfi er að veikjast smám saman og endar náttúrlega með því að fólk finnur aðrar leiðir. Telur hv. þingmaður almennt að launafólk þekki réttindi sín þegar kemur að tryggingamálum í tengslum við slys og sjúkdóma?