144. löggjafarþing — 114. fundur,  28. maí 2015.

störf þingsins.

[10:16]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé óhætt að segja að það hafi verið léttara yfir þinghaldinu í gær eftir að hæstv. forseti tók þá ákvörðun að fresta um sinn umræðu um rammaáætlun. Í það minnsta er hægt að segja að það hafi verið tilbreyting að ná samfelldri umræðu um mál þar sem hv. þingmenn tóku til óspilltrar efnislegrar umræðu og vil ég nota tækifærið og taka undir með öðrum hv. þingmönnum sem hafa hrósað virðulegum forseta fyrir vikið.

Eins og hæstv. forseti tilkynnti er málið áfram á dagskrá en frestað og vonandi nýtum við hv. þingmenn tímann vel á meðan og vinnum þeim málum framgang sem hafa beðið umræðu. Ekki veitir af þar sem listinn er langur og fjöldamörg mál liggja fyrir. Þá eru enn mál að koma úr nefndum og von á mikilvægum málum inn í þingið eins og húsnæðisfrumvörpum hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra og frumvörpum sem lúta að losun gjaldeyrishafta frá hæstv. fjármálaráðherra.

Staðan á vinnumarkaði á auðvitað hug okkar allra og það skiptir afar miklu að vel takist til. Vissulega eru jákvæðar vísbendingar um að það sé að rofa til og ánægjulegt í því samhengi að sjá samningsdrög VR, Flóabandalagsins og fleiri við Samtök atvinnulífsins þar sem áherslan er á að hækka lægstu laun og verja millitekjur. Það eru þau markmið sem var lagt upp með þannig að það er vissulega mjög ánægjulegt að sjá og heyra þær jákvæðu fréttir.

Þá er frestun Starfsgreinasambandsins á verkfalli til að auka á bjartsýnina og vonandi koma fljótlega jákvæðar fréttir af samningafundum hins opinbera, en full ástæða er til að vaka vel yfir áhrifum langvarandi verkfalla á heilbrigðiskerfið.