144. löggjafarþing — 114. fundur,  28. maí 2015.

stefna stjórnvalda um lagningu raflína.

321. mál
[10:39]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hér greiðum við atkvæði um þingsályktunartillögu um lagningu raflína. Við í Vinstri grænum teljum brýnt að tillit sé tekið til náttúruverndarlaga sem taka eiga gildi núna 1. júlí og að brýnt sé að horfa til jaðarsvæða umhverfis þjóðgarða og friðlýstra svæða þar sem mikil sjónmengun getur orðið af loftlínum. Við teljum líka mikilvægt að samanburður sé gerður á kostnaði við jarðstrengi og hann verði aukinn og í sumum tilfellum að hámarkshlutfall verði enn hærra en við leggjum til, sem er þrisvar sinnum miðað við kostnað við lagningu raflínu.

Við erum með breytingartillögur í þessum efnum sem ég mun kynna þegar þær verða bornar upp.