144. löggjafarþing — 115. fundur,  29. maí 2015.

frumvarp um afnám gjaldeyrishafta.

[11:23]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég get ekki sleppt því að rifja upp fyrst hér er farið að tala um skattkerfisbreytingar fyrri ríkisstjórnar. Gleymum því ekki að verðtrygging persónuafsláttar var afnumin. Hefði það ekki verið gert væri einhver innstæða fyrir þessum orðum, en það var þannig að skattbyrði lægstu launa hækkaði vegna þess að persónuafslátturinn var aftengdur verðlagi þegar það rauk upp. Síðan var það þannig með milliskattþrepið að þegar við komum í ríkisstjórn þá var það í 240 þús. kr. Eru það millitekjur? Nei, það eru engar millitekjur. Það er engum blöðum um það að fletta að lág laun fengu á sig aukna skattbyrði. Við erum að vinda ofan af því núna.

Varðandi haftamálin skal ég segja að það er skaði af því hversu langan tíma þetta hefur tekið. Við lögðum upp með það að höftin yrðu í tvö ár þegar við komum þeim á haustið 2008. Því miður erum við ekki fyrir löngu komin fram með fullbúna áætlun um þessi mál. Skiptir vika til eða frá máli í sjálfu sér eða tveir, þrír mánuðir, jafnvel sex í samanburði við það að þetta takist vel þegar það gerist? (ÖS: Þú lýstir …) Það var talsvert til í því sem seðlabankastjóri sagði á sínum tíma, að við hefðum eitt skot til að skjóta með í þessu máli. Það skiptir auðvitað öllu máli þegar áætlunin kemur fram að hún sé vel ígrunduð og að aðgerðaáætlunin gangi eftir. Það finnst mér miklu mikilvægara. Um leið viðurkenni ég að ég vildi mjög gjarnan hafa komið með þetta mál fyrir talsvert löngu síðan, en þetta er mál sem hefur þurft að þroskast og það hefur tekið ákveðnum breytingum, meira að segja á undanförnum mánuðum, þessum síðustu þremur og sex sem vísað er til. Við höfum þurft að aðlaga okkur að veruleikanum og ráðgjöf okkar bestu ráðgjafa.

Varðandi samráðshópinn þá er rétt að hann hefði svo sem mátt koma oftar saman, en það gat aldrei orðið hinn tæknilegi úrlausnarvettvangur, jafnvel þótt ég hefði komið með allt það sem ég veit um þessi mál að því borði og setið yfir því með formönnum annarra flokka eða fulltrúum (Forseti hringir.) flokkanna þá hefðum við aldrei getað leyst það. Það var alltaf ljóst (Forseti hringir.) að þetta yrði fyrst og fremst vinna (Forseti hringir.) sérfræðinga. Ég hef reynt að koma upplýsingum á framfæri á þeim vettvangi (Forseti hringir.) og við munum að sjálfsögðu setjast saman með þeim hópi áður en málið kemur á dagskrá þingsins. (Gripið fram í.)