144. löggjafarþing — 115. fundur,  29. maí 2015.

frumvarp um afnám gjaldeyrishafta.

[11:25]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Samkvæmt rannsóknum ríkisskattstjóraembættisins sem hafa birst í ritum þess og fræðigreinum fræðimanna þá er það staðreynd að það hlutfall launa tekjulægstu tíundanna sem fór í skattgreiðslur á árunum 2010, 2011 og 2012 var til muna lægra en það var 2007 og 2008 í frjálshyggjuskattkerfi ríkisstjórnarinnar sem nú á að fara að endurvekja í einhverju skjóli af kjarasamningum. Það eru staðreyndir.

Varðandi stöðuna um afnám hafta þá er ég ekki að mæla með óðagoti eða glannaskap og það höfum við aldrei gert, en mér finnst dapurlegt og óhyggilegt að reyna ekki að treysta samstöðu í landinu um þetta risavaxna mál. Mér duga ekki þau svör að þetta sé svo flókið og það þurfi svo mikla sérfræðinga til að undirbúa þetta að það hafi lítið upp á sig að kalla stjórnmálamenn að borðinu. Ætli verði nú ekki að taka einhverjar pólitískar ákvarðanir, velja á milli leiða o.s.frv.? Það gera tæknimenn ekki þótt sérfræðingar séu. Þessi svör hæstv. ráðherra eru haldlaus.