144. löggjafarþing — 115. fundur,  29. maí 2015.

frumvarp um afnám gjaldeyrishafta.

[11:26]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Þetta er nú frekar einfalt í mínum huga. Þegar menn hækka skattprósentuna þá eru menn að hækka skatta. Þegar menn taka upp fjölþrepaskattkerfi með hækkandi sköttum þá eru menn að hækka skatta. Tekjutíundirnar tóku breytingum vegna þess að laun hrundu í landinu, sérstaklega efst uppi. Það er út af fyrir sig rétt að það skipti máli að lægstu tekjutíundirnar væru með lægri skattbyrði en það gerðist í sjálfu sér ekki út af því að menn lækkuðu skattana, það gerðist vegna þess að tekjusamsetningin gjörbreyttist.

Ég ætla þrátt fyrir nokkuð hvöss orð hér að vonast til þess að við náum góðri samstöðu um verklag við að taka á því máli sem er á leiðinni inn í þingið. Ég skil vel að menn kalli stíft eftir frekara samráði og upplýsingum. Menn hljóta þá að kannast við það að við höfum setið saman yfir þessum málum og við höfum lýst öllum breiðu línunum. Við höfum til dæmis farið yfir það hvernig málið hefur þroskast í vetur. Ég man eftir fundi fyrir ekki löngu síðan sem ég sjálfur sat þar sem við reyndum að draga upp breiðu (Forseti hringir.) línurnar í þessu. Svo mun sú umræða að sjálfsögðu verða tekin miklu dýpra þegar málið kemur hingað inn í þing.